Körfubolti

Chicago lagði meistarana í Miami

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nate Robinson og félagar höfðu ástæðu til að brosa í Miami.
Nate Robinson og félagar höfðu ástæðu til að brosa í Miami. Nordicphotos/Getty
Nate Robinson skoraði 27 stig og fór fyrir liði Chicago sem vann óvæntan 93-86 sigur á Miami Heat í undanúrslitum Austurdeildar NBA í nótt.

Leikurinn var sá fyrsti í rimmu liðanna. Chicago tryggði sér sæti í undanúrslitum með sigri á Brooklyn Nets í sjöunda leik liðanna á laugardag en enga þreytu var að merkja á rauðklæddum gestunum.

Heimamenn í Miami leiddu 76-69 þegar sex og hálf mínúta lifði leiks. Þá settu Robinson og félagar í fluggírinn, skoruðu 24 stig gegn 10, og stjörnurnar LeBron James og Dwyane Wade vissu ekki hvað á sig stóð veðrið.

Joakim Noah skoraði 13 stig og hirti 11 fráköst fyrir Chicago. Dugnaður gestanna í fráköstum lagði grunninn að sigrinum en liðið tók 46 fráköst gegn 32 fráköstum heimamanna. LeBron James skoraði 24 stig þar af 15 í síðasta fjórðungi. Wade skoraði 14 stig.

Annar leikur liðanna fer fram í Miami annað kvöld.

LeBron James tók við verðlaunum sem besti leikmaður deildarinnar fyrir leik.Nordicphotos/Getty
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×