Handbolti

Umfjöllun, viðtöl og myndir: Fram - Stjarnan 19-16 | Fram Íslandsmeistari

Guðmundur Marinó Ingvarsson í Safamýri skrifar
Fram varð í dag Íslandsmeistari kvenna í 20. sinn með því að leggja Stjörnuna að velli 19-16 í oddaleik liðanna í N1 deild kvenna. Frábær varnarleikur lagði grunninn að sigri Fram í spennuþrungnum leik.

Gríðarlegar sviptingar voru í fyrri hálfleik. Fram byrjaði betur og komst í 4-1 en eftir að Fram komst í 5-2 skoraði liðið ekki í stundarfjórðung.

Stjarnan skoraði fimm mörk í röð og komst yfir 7-5. Fram lék frábæran handbolta síðustu sex mínútur fyrri hálfleiks og skoraði 7 mörk gegn þremur og var tveimur mörkum yfir í hálfleik 12-10.

Stella Sigurðardóttir skoraði fyrsta mark seinni hálfleiks í fyrstu sókn Fram en rétt tæplega fimm mínútur voru liðnar af leiknum þar til Stjarnan skoraði næsta mark leiksins.

Þessar upphafs mínútur eru lýsandi fyrir seinni hálfleik. Liðin léku frábæra vörn og var greinilegt að þreyta var komin í liðin því hvorugu liði tókst að keyra hraðaupphlaup þrátt fyrir að liðin töpuðu boltanum marg oft og fjölmörg tækifæri gáfust til að sækja hratt.

Eftir því sem leið á leikinn virtist Stjarnan missa trúna á að liðið gæti hreinlega skorað. Liðið náði fáum skotum á markið og þegar það tókst varði Guðrún Bjartmarz oftar en ekki en hún átti frábæran dag í markinu.

Stjarnan náði að minnka muninn í 15-14 þegar korter var eftir af leiknum eftir að hafa fengið fjölmörg tækifæri til þess. Stjarnan hafði fengið tækifæri til að minnka muninn og jafna einum fleiri en náði ekki að nýta færin sem liðið fékk.

Eftir að Stjarnan minnkaði muninn í eitt mark missti liðið Þórhildi Gunnarsdóttur í tvær mínútur og Fram refsaði um leið og leit ekki til baka.

Fram skoraði fjögur mörk gegn engu á níu mínútna kafla og náði fimm marka forystu 19-14. Stjarnan skoraði tvö mörk á síðustu mínútu leiksins en það var of lítið og of seint og Fram Íslandsmeistari í fyrsta sinn í 23 ár.

Halldór: Þetta eru gull stelpur„Við spiluðum tvo lélega heimaleiki og það var ekki í boði að tapa fjórum leikjum í röð á heimavelli. Við ætluðum allan tímann að vinna þennan leik en þegar þú ert kominn út í þennan leik þá er þetta spurning um dagsform og vera með færri feila og spila betri vörn, gamla góða klisjan,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon þjálfari Íslandsmeistara Fram.

„Við lendum í smá vandræðum og skorum ekki mark lengi. Það var einkennandi fyrir liðið að það skipti engu máli. Við vissum að þær myndu koma með áhlaup á okkur og við myndum ekki skora í einhvern tíma. Aðalatriðið var að við myndum halda vörninni og halda þeim niðri í seinni bylgjunni og hraðaupphlaupunum og það gekk best í þessum leik í þessu einvígi og það var kannski það sem skipti sköpum í lokin.



„Við spiluðum síðustu mínúturnar í fyrri hálfleik frábærlega og það gaf okkur mikla orku inn í hálfleikinn. Við vissum líka að við vorum með tveggja marka forystu í síðasta leik og klúðruðum því á sex mínútum og þær voru komnar tveimur mörkum fram úr. Það eru sveiflurnar á milli þessara liða. Þetta eru tvö frábær handboltalið og það er gríðarlega mikil reynsla í þessu Stjörnuliði.



Það var talað um okkur sem stóra liðið í þessu einvígi. Það má ekki gleyma því að það eru töluvert fleiri landsleikir í þessu Stjörnuliði heldur en í liði mínu. Svo hefur verið umræða um þessa silfur hefð í Fram og það var sérstaklega fyrir leik númer fjögur og ég held að það hafi kveikt í mínum stelpum. Þær sýndu þennan karakter sem býr í þessu liði. Þetta eru gull stelpur, engar silfur stelpur.



„Það var einkennandi fyrir leikinn allan tímann. Það skipti ekki máli hvort við vorum einum færri, einum fleiri eða hvort það væru jafn margir. Við spiluðum frábæra vörn allan tímann. Við höfðum alltaf trú á þessu og enginn svekkir sig á neinu.



Í þessum kafla þegar við erum einum færri í lokin. Þá bætir hver leikmaður við sig 20% og við setjum gríðarlega pressu á Stjörnuliðið og þær þurfa að taka erfiðar ákvarðanir og þær voru ekki að hitta í dag.



„Við vissum að þær myndu taka tvær úr umferð í leiknum. við vissum ekki á hvaða tímapunkti. Við gerum svolítið af feilum þá en það skipti ekki máli þar sem við vorum með góða forystu og vorum að spila góða vörn sem við komum okkur til baka í. Við vorum ekki að senda boltann beint í hendurnar á þeim eins og í síðasta leik þannig að þær gætu keyrt beint í bakið á okkur eins og í síðasta leik.



„Við fengum frábæra markvörslu. Guðrún kemur inn í haust til að hjálpa okkur í meiðslum, svo verður hún markvörður númer tvö og svo markvörður númer eitt. Þetta var ekki eitthvað sem hún ætlaði sér en hún er búin að standa sig frábærlega í vetur og búin að bjarga okkur oft á tíðum.



Umræðan um markmannsmál Fram hefur verið leiðinleg en hún er búin að eiga frábært tímabil eins og allar stelpurnar. við getum ekki kvartað undan þessu tímabili. Við förum í úrslit bikars, vinnum deildarbikarinn, töpum bara tveimur leikjum í deildinni og erum jöfn deildarmeisturunum að stigum og fara svo í þessa úrslitakeppni og verða Íslandsmeistari. Ef mér hefði verið boðið þetta fyrir mót hefði ég alveg tekið það,“ sagði Halldór að lokum.

Skúli: Erum ekki með lakara lið„Maður er hund svekktur núna yfir að hafa ekki náð að sýna betri leik í dag. Við erum ekki lakara lið en Fram og höfum sýnt það. Við náðum ekki að sýna okkar besta sóknarleik í dag og það varð okkur dýrkeypt,“ sagði Skúli Gunnsteinsson þjálfari Stjörnunnar eftir leikinn.

„Þetta var mjög sérstakur leikur. Seinni hálfleikur fór 7-6 fyrir Fram. Þetta er eins og í gamla daga. Það var ekki mikið skorað og það var mikil barátta en þetta féll Fram megin í dag.„Maður er auðvitað svekktur. Þegar maður er kominn svona langt er bara eitt í boði og það er að vinna. Við jöfnum okkur á því.



„Það var pínu þreyta í liðunum sem er eðlilegt og svo var líka spenna. Það var titill í boði. Það hefur einhver áhrif en þetta var samt óvenju lítið af mörkum.



„Við fengum fín færi og unnum boltann trekk í trekk í trekk eftir að við fórum að taka tvær úr umferð en við fengum ekkert út úr þessu sóknarmegin og þegar við fengum færi þá klikkuðum við í færunum,“ sagði Skúli.

Elísabet: Hanna kveikti í okkur.„Ég hafði mjög góða tilfinningu fyrir þessum leik. Það voru allir leikmenn mjög mótiveraðir, bæði fyrir leik og í hálfleik. Ef það gekk eitthvað illa kom aldrei neinn uppgjafa svipur á mann. Við vorum staðráðnar í að vinna þennan leik og að sjálfsögðu voru Stjörnustúlkur það líka en við gerum færri tæknifeila og með góða markvörslu og góða vörn sem landar þessum sigri,“ sagði Elísabet Gunnarsdóttir línumaður og vítaskytta Fram og fyrrum leikmaður Stjörnunnar.

„Guðrún var frábær í markinu. Hún hefur fengið smá gagnrýni í vetur en hún var frábær í dag og svaraði gagnrýnni frábærlega. Svo vorum við með mjög góða vörn og það eru margir mjög góðir einstaklingar í þessu liði.

„Það hefur verið talað um okkur sem eitthvað silfurlið og við þögguðum niður í þeirri umræðu með þessum sigri,“ sagði Elísabet en Hanna Guðrún Stefánsdóttir kallaði Fram silfurlið í samtali við Vísi eftir þriðja leik liðanna, þegar Stjarnan komst í 2-1 í einvíginu.

„Hún kveikti í okkur með sínum ummælum og það hjálpaði okkur öllum. Það má vera að liðið hafi lent í öðru sæti síðustu fimm árin en það var á móti betra liði, því miður en í dag vorum við betra liðið og við ætlum svo sannarlega að fagna því. Við eigum það svo sannarlega skilið,“ sagði Elísabet sem fannst óneitanlega skrítin tilfinning að leika gegn sínu gamla liði.

„Það var öðruvísi að maður hefur í rauninni ekki samband við vinkonur sínar á meðan þessi rimma var í gangi. Það varð bara að vera svoleiðis og ég er fegin að þetta er búið og ég get farið að tala við vini mína aftur.

„Vítin voru örugg í dag en þau voru það ekki í síðasta leik. Þetta er í rauninni sálfræðistríð við markmanninn og hitta á réttan stað og ég gerði það í dag.

Stella: Ætluðum okkur ekkert silfur sjötta árið í röð„Ég ætlaði að gefa allt í þetta. Ég vissi að þetta væri síðasti leikurinn minn á Íslandi í einhvern tíma. Það var frábært að ná að sigra, ég var búin á því eftir leikinn,“ sagði Stella Sigurðardóttir stórskytta Fram sem átti frábæran leik í dag og skoraði 8 mörk.

„Mér fannst við vera með þetta í seinni hálfleik. Við töluðum okkur saman í hálfleik og komum af krafti inn í þetta í seinni hálfleik og mér fannst þetta öruggt allan seinni hálfleikinn.

„Vörnin var frábær í seinni hálfleik og Guðrún fyrir aftan. Þær skora sex mörk og þar af tvö alveg í restina þegar þetta var búið.

„Það börðust allar fyrir þessu og allar jafn harðar. Vörnin var frábær,“ sagði Stella sem sagði umræðu um silfur hefð í Safamýrinni hafa kveikt bál í liðinu.

„Það kveikti í okkur að þær voru farnar að tala um einhverja silfur hefð í Safamýrinni. Við ætluðum að afsanna þá kenningu og við gerðum það og sigruðum þennan leik á hörkunni. Við ætluðum okkur ekkert silfur sjötta árið í röð.

„Það var allt eða ekkert í þessum leik og við gáfum allt í þetta,“ bætti Stella við en nánar er rætt við Stellu í Fréttablaðinu á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×