Dönsk stjórnvöld hafa ítrekað spáð rangt um hagvöxt í landinu á undanförnum árum.
Í dönskum fjölmiðlum kemur fram að í desember í fyrra spáðu stjórnvöld 1,3% hagvexti í Danmörku í ár. Sú spá var endurskoðuð nokkru síðar og þá gert ráð fyrir 0,7% hagvexti. Í morgun kom svo enn ein endurskoðunin á spánni og er nú gert ráð fyrir 0,5% hagvexti.
Í frétt um málið á vefsíðu TV2 segir að sjálfstæðir hagfræðingar segi að þessi nýjasta spá stjórnvalda gæti verið í bjartsýnni kantinum.
Þetta er langt í frá í fyrsta sinn á liðnum árum að dönsk stjórnvöld hafi á röngu að standa í spám sínum um hagvöxt. Frá árinu 2009 hafa danskir embættismenn verið of bjartsýnir í spám sínum í fjórum af hverjum fimm tilvikum.
Bo Sandemann Rasmussen hagfræðiprófessor við háskólann í Árhúsum segir að þetta sé vandamál bæði fyrir trúverðugleika stjórnvalda og einnig fyrir danskt efnahagslíf.
„Trúverðugleikinn er í hættu þegar spárnar eru ítrekað of bjartsýnar,“ segir Rasmussen. „Og sú hætta er til staðar að efnahagsáætlanir hins opinbera séu byggðar á röngum forsendum ef þessar spár eru lagðar til grundvallar þeim.“
Spá ítrekað rangt til um hagvöxt í Danmörku
