Körfubolti

San Antonio komið í 2-0

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/AP

Tony Parker var magnaður í mikilvægum sigri San Antonio á Memphis, 93-89, í framlengdum leik í lokaúrslitum Vesturdeildarinnar í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Þar með er San Antonio komið í 2-0 forystu í rimmunni eftir tvo sigra á heimavelli. Næsti leikur fer fram í Memphis á laugardag.

San Antonio hafði mikla yfirburði framan af leik og náði mest átján stiga forystu. Ekkert gekk hjá Memphis sem var með skelfilega skotnýtingu, sérstaklega í fyrri hálfleik.

En gestirnir bitu í skjaldarrendur og náðu að jafna metin í fjórða leikhluta eftir góðan sprett. Tim Duncan klikkaði á skoti í lokasókninnni og því þurfti að framlengja.

Þar tóku Parker, Duncan og félagar völdin á ný og unnu fjögurra stiga sigur. Parker var með fimmtán stig alls en átján stoðsendingar sem er persónulegt met hjá honum, hvort sem er í leik í deilar- eða úrslitakeppninni.

Memphis þekkir þessa stöðu vel því liðið hefur lent undir í öllum þremur rimmum sínum í úrslitakeppninni. „Við erum í sömu stöðu og gegn LA Clippers. Nú þurfum við bara að fara heim og klára okkar mál. Það verður ekki auðvelt en þetta er bara staðan,“ sagði Lionel Hollins, þjálfari Memphis.

Duncan var stigahæstur í liði San Antonio með sautján stig en hann tók níu fráköst. Mike Conley og Jerryd Bayless skoruðu átján stig hvor fyrir Memphis en Zach Randolph fimmtán.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×