Körfubolti

Jón Arnór og félagar komnir í sumarfrí

Stefán Árni Pálsson skrifar
Jón Arnór í upphitun fyrir leikinn í kvöld
Jón Arnór í upphitun fyrir leikinn í kvöld Mynd / karfan.is

Real Madrid er komið áfram í úrslitaeinvígið um spænska meistaratitilinn í körfuknattleik eftir fínan sigur, 77-63, á CAI Zaragoza í þriðja leik liðanna. Real Madrid gerði sér því lítið fyrir og sópaði Jóni Arnóri Stefánssyni og félögum í CAI Zaragoza í sumarfrí.

Heimamenn Zaragoza byrjuðu leikinn mjög vel og voru virkilega ákveðnir. Það var greinilegt að liðið ætlaði sér að berjast til síðasta blóðdropa.

Zaragoza náði til að mynda 13 stiga forskoti í fyrri hálfleiknum 35-22 en eftir það fóru leikmenn Real Madrid að nálgast þá hægt og rólega.

Í upphafi fjórða leikhlutans gerðu síðan þeir hvítklæddu út um leikinn og lauk honum með fínum sigri Real Madrid 77-63.

Jón Arnór Stefánsson gerði 5 stig fyrir CAI Zaragoza í leiknum.

Bein textalýsing frá leiknum í kvöld:

Leik lokið: Jæja þá eru Jón Arnór og félagar á leiðinni í sumarfrí en Real Madrid sópar CAI Zaragoza úr leik 3-0 eftir nokkuð þægilegan sigur 77-63.

4. leikhluti: Real Madrid virðist ætla klára þennan leik en staðan er 69-58 þegar þrjár mínútur eru eftir. Þeir eru á leiðinni í úrslitin.

4. leikhluti: Gestirnir frá Madrid byrja lokaleikhlutann mun betur og leiða nú leikinn 58-52.

3. leikhluta lokið: Leikurinn er enn virkilega spennandi og leikmenn CAI Zaragoza hafa heldur betur staðið í stórveldinu en staðan er 53-50 fyrir Real Madrid.

3. leikhluti: Real Madrid er komið yfir þegar fjórar mínútur eru eftir að þriðja leikhlutanum. Staðan er 45-43.

3. leikhluti: Zaragoza byrjar síðari hálfleikinn vel og leiða leikinn 41-35. Jón Arnór byrjar síðari hálfleikinn.

Hálfleikur: Gestirnir komu til baka undir lok hálfleiksins og er staðan 37-35 fyrir Zaragoza í hálfleik. Heimamenn að koma á óvart að spurning hvort þeir haldi þetta út.

2. leikhluti: Leikmenn Zaragoza fara hér á kostum og eru komnir tíu stigum yfir 32-22. Magnaður kafli en Jón Arnór hefur ekki enn komist á blað.

2. leikhluti: Frábær kafli frá Zaragoza sem hefur breytt stöðunni í 25-20 sér í vil.

1. leikhluta lokið: Real Madrid kemur sterkt inn í leikinn undir lok fjórðungsins og leiðir 18-14.

1. leikhluti: Leikmenn Zaragoza ætla greinilega að selja sig dýrt en staðan er 12-12  þegar lítið er eftir af fyrsta fjórðungi.

1. leikhluti: Jón Arnór Stefánsson byrjar leikinn á bekknum. Staðan er 2-2.

Fyrir leik: Þá er allt klárt fyrir leikinn og stemmningin frábær í höllinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×