Atvinnuleysi á Spáni minnkaði um rétt tæp 2% í maí og fór niður í 25%. Hér er hinsvegar að mestu leyti um tímabundnar ráðningar í ferðaþjónustugeira landsins að ræða fyrir sumarvertíðina.
Forsætisráðherra landsins, Mariano Rajoy sagði áður en nýjar tölur um atvinnuleysið voru birtar í morgun að þær yrðu mjög jákvæðar. Atvinnulausum í landinu fækkaði um 98.000 manns og er það mesta aukning starfa í maí síðan að fjármálakreppan skall á árið 2008. Ef horft er framhjá tímabundnum störfum í ferðamannaþjónustunni og í landbúnaði vegna komandi uppskeru á ýmsu grænmeti og ávöxtum fjölgaði störfum aðeins um 265.
Í frétt um málið á Reuters kemur fram að miðað við þessar tölur sé ekki hægt að segja að viðsnúningur sé hafin á Spáni hvað atvinnuleysið varðar.
Á fyrsta ársfjórðungi ársins mældist 27% atvinnuleysi á Spáni, eða það mesta í Evrópu að Grikklandi frátöldu. Þótt hagvöxtur verði á Spáni á næsta ári, eins og hagfræðingar spá, mun sá vöxtur ekki leiða strax til minnkandi atvinnuleysis. Þannig gerir matsfyrirtækið Fitch Ratings ráð fyrir að atvinnuleysið á Spáni muni ná hámarki í 28,5% á fyrsta ársfjórðungi næsta árs.

