Körfubolti

Jason Kidd leggur skóna á hilluna

Stefán Árni Pálsson skrifar
Jason Kidd í leik með New York Knicks á tímabilinu.
Jason Kidd í leik með New York Knicks á tímabilinu. Mynd. / Getty Images

Körfuknattleiksmaðurinn Jason Kidd hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna eftir 19 tímabil í NBA-deildinni.

Þetta kom fram í yfirlýsingu frá Glen Grunwald, framkvæmdarstjóra New York Knicks fyrr í dag.

„Framlag hans til deildarinnar í heild sinni er ómetanlegt,“ sagði Glen Grunwald.

„Það hafa allir séð hversu megnugur þessi leikmaður er á tímabilinu og á Kidd það fyllilega skilið að vera nefndur til sögunnar þegar talað er um bestu leikstjórnendur deildarinnar frá upphafi.“

„Tími minn sem atvinnumaður í körfuknattleik hefur verið ótrúlegur,“ sagði Jason Kidd við fjölmiðla ytra.

„Þetta varð að taka enda að lokum og eftir 19 ár er einfaldlega kominn tími á endalokin. Þegar ég horfi til baka á feril minn þá stendur ekkert sérstakt uppúr, ég lék með fjórum liðum og á eftir að sakna þessa að vera hluti af liðsheild.“

Jason Kidd var tíu sinnum valinn í Stjörnulið NBA-deildarinnar og átti magnaðan feril sem atvinnumaður.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×