Körfubolti

Stelpurnar misstu naumlega af gullinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/KKÍ

Ísland mátti þola svekkjandi tap gegn Lúxemborg í lokaleik liðsins í körfubolta kvenna á Smáþjóðaleikunum í dag.

Stelpurnar verða því að sætta sig við silfur en heimamenn unnu þriggja stiga sigur, 62-59, eftir hnífjafnan og æsispennandi leik.

Ísland fékk boltann þegar fimm sekúndur voru eftir og Helena Sverrisdóttir náði að koma sér í skotfæri utan þriggja stiga línunnar. En skot hennar geigaði.

Ísland byrjaði mjög vel og var komið með tíu stiga forystu, 20-10, í fyrsta leikhluta. Eftir það dró saman með liðunum og staðan var jöfn að loknum fyrri hálfleik, 35-35.

Leikurinn var í járnum í seinni hálfleik og liðin skiptust á að vera í forystu lokamínútur leiksins.

Þegar þrjár mínútur voru eftir var Lúxemborg með tveggja stiga forystu, 57-55, og hélt í sókn. Heimamenn náðu að setja niður mikilvæga þriggja stiga körfu og komust því fimm stigum yfir.

En íslensku stelpurnar létu ekki segjast og náðu að minnka muninn í eitt stig. En heimamenn voru grimmari í fráköstunum á lokamínútunni og komu sér í lykilstöðu með því að ná í tvö vítaskot þegar rúmar fimm sekúndur voru eftir.

Tessy Hetting klikkaði hins vegar á báðum vítaskotunum, Ísland náði frákastinu og brunaði í sókn með fyrrgreindum afleiðingum.

Helena, sem bætti stigamet íslenska liðsins í dag, skoraði sautján stig í dag og tók fimmtán fráköst. María Ben Erlingsdóttir skoraði tólf stig og Petrúnella Skúladóttir tíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×