Körfubolti

Lin þoldi ekki pressuna og grét fyrir leik

Lin með þjálfarann, Kevin McHale, á bakinu.
Lin með þjálfarann, Kevin McHale, á bakinu.
Ein stærsta Öskubuskusagan í bandarísku íþróttalífi er þegar Jeremy Lin spratt fram á sjónarsviðið hjá NY Knicks og sló rækilega í gegn. Hann fór úr því að sofa á sófanum hjá vini sínum í að verða heimsþekkt stjarna.

Hann samdi svo við lið Houston Rockets fyrir síðasta tímabil og fékk mjög flottan samning. Líf hans hafði breyst á mettíma og allt í einu var hann maður undir mikilli pressu.

Lin hélt ræðu í Taiwan þar sem hann talaði opinskátt um hversu erfitt var að standa undir öllum væntingunum síðasta vetur. Lin játaði að hafa hvorki getað borðað né sofið um tíma. Svo grét hann fyrir einn leik því hann hafði svo miklar áhyggjur af því að missa sæti sitt í byrjunarliðinu.

"Ég átti að vera í lykilhlutverki hjá Houston. Leiðtogi í liðinu. Fólk bjóst við því að ég myndi gera það sama og hjá Knicks. Ég var á öllum auglýsingaskiltum og ég var maðurinn sem átti að bjarga körfuboltanum í borginni," sagði Lin í ræðunni.

"Ég byrjaði tímabilið illa og fór að sitja meira á bekknum eftir tíuleiki. Þjálfararnir fóru að missa trúna á mig og körfuboltaáhugamenn fóru að gera grín að mér og Twitter-síðan mín var full af hatursfullum skilaboðum. Það var erfitt.

"Í desember skrifaði ég í dagbókina mína að ég væri orðinn þreyttur og gæti ekki beðið eftir því að tímabilið kláraðist. Ég gat ekki borðað eða sofið og var fullur af kvíða.

"Þetta átti að vera skemmtilegt tímabil en ég gat ekki notið mín. Ég var hættur að brosa og grét fyrir leik gegn Hornets því ég óttaðist að missa sæti mitt í byrjunarliðinu."

Þrátt fyrir allt stóð hann sig nokkuð vel í fyrra. Skoraði 13,4 stig og gaf 6,1 stoðsendingu að meðaltali í leik.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×