Körfubolti

Finnar komnir áfram eftir sigur í tvíframlengdum leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Finnar fagna sigri og sæti í millirðli.
Finnar fagna sigri og sæti í millirðli. Mynd/AFP
Finnar halda áfram að standa sig vel á Evrópumótinu í körfubolta karla í Slóveníu en Finnar tryggðu sér sæti í milliriðli með 86-83 sigri á Rússum í tvíframlengdum leik í dag. Úrslitin þýða að Rússar eru úr leik á mótinu. Úrslitin eru ráðin í D-riðli því Ítalía og Grikkland eru líka komin áfram eins og Finnland. Tyrkland, Svíþjóð og Rússland eru úr leik.

Sigur Finna á Rússum var þriðji sigur liðsins í fjórum leikjum á mótinu og þeir eru komnir áfram þrátt fyrir að ein umferð sé enn eftir. Finnska liðið lenti undir í bæði venjulegum leiktíma sem og framlengingunni en kom til baka og náði að tryggja sér frábæran sigur. Rússar unnu bronsið á Ólympíuleikunum í London fyrir ári síðan en mættu á mótið án lykilmanna og þar á meðal var Andrei Kirilenko, framherji Minnesota Timberwolves.

Shawn Huff skoraði 20 stig fyrir Finna og þeir Tuukka Kotti og Sasu Salin voru báðir með 12 stig og 10 fráköst. Aleksey Shved skoraði 25 stig fyrir Rússa. Reynsluboltinn Hanno Möttölä tryggði Finnum framlengingu á vítalínunni og skoraði síðan mikilvægan þrist í seinni framlengingunni.

Ítalir eru búnir að vinna alla sína leiki á mótinu en þeir unnu 81-72 sigur á Grikkjum í dag. Grikkir voru búnir að vinna alla þrjá leiki sína fyrir leikinn alveg eins og Ítalir. Marco Belinelli, bakvörður Chicago Bulls, skoraði 23 stig fyrir Ítala. Ítalir eru komnir áfram og Grikkir líka þrátt fyrir tapið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×