Körfubolti

15-0 sprettur í byrjun fjórða lagði grunninn að sigri Litháa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Litháar tryggðu sér sæti í undanúrslitum á Evrópumóti karla í körfubolta í Slóveníu eftir fjögurra stiga sigur á Ítalíu, 81-77, í átta liða úrslitum keppninnar í kvöld. Frábær kafli í byrjun fjórða leikhluta þar sem litháenska liðið náði 15-0 spretti lagði grunninn að sigrinum.

Litháar voru síðast í undanúrslitunum EM á Spáni 2007 þegar þeir unnu bronsið en þeir urðu í 11. sæti 2009 og svo í 5. sæti á heimavelli sínum fyrir tveimur árum.

Mantas Kalnietis var með 17 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar hjá Litháum, Renaldas Seibutis skoraði 17 stig og Jonas Maciulis var með 13 stig og 5 stoðsendingar. Marco Belinelli skoraði 22 stig fyrir Ítala.

Litháar byrjuðu betur og voru 22-15 yfir eftir fyrsta leikhlutann en góður annar leikhluti Ítala sá til þess að Litháar voru aðeins með eins stigs forskot í hálfleik, 40-39.

Litháar komust sex stigum yfir í þriðja leikhlutanum en Ítalir voru ekki á því að gefa sig og tókst að komast einu stigi yfir, 58-57, fyrir lokaleikhlutann.

Litháar hrukku þá heldur betur í gang, skoruðu fyrstu fimmtán stigin fjórða leikhlutans og komust í 71-58. Eftir það var orðið ljóst hvort liðið væri að fara áfram en Ítalir náðu að minnka muninn í fjögur stig í blálokin.

Litháar mæta Króötum í undanúrslitunum á morgun en í hinum undanúrslitaleiknum mætast Spánn og Frakkland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×