Körfubolti

Michael Jordan: Ég hefði unnið LeBron James

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Jordan.
Michael Jordan. Mynd/AFP
Michael Jordan er að flestra mati besti körfuboltamaður allra tíma en hann fór á kostum í NBA-deildinni á níunda og tíunda áratugnum og vann meðal annars sex meistaratitla með Chicago Bulls.

Michael Jordan sem er orðinn fimmtugur í dag lét athyglisverð ummæli frá sér þegar hann kynnti til leiks nýja NBA-leikinn, NBA 2K14. MJ er viss að hann hefði unnið LeBron James þegar hann var upp á sitt besta.

Jordan talaði um að það væru margir leikmenn sem hann hefði viljað mæta einn á móti einum, menn eins og Jerry West, Elgin Baylor, Julius Erving, Carmelo Anthony, Dwyane Wade, Kobe Bryant og LeBron James.

„Ég held að ég hefði ekki tapað fyrir neinum þeirra," sagði Michael Jordan en bætti svo við: „Nema kannski á móti Kobe Bryant af því hann er búinn að stela öllum hreyfingunum mínum," sagði Michael Jordan í kynningarmyndbandi fyrir þennan vinsæla NBA-leik.

Ummælin voru að sjálfsögðu borin undir LeBron James. „Sagði MJ þetta?," svaraði LeBron James og hann viðurkenndi fúslega að hafa hugsað um hvernig honum hefði gengið á móti Michael Jordan.

„Ég hef hugsað um að mæta Jordan. Það mun samt enginn sjá slíkan leik því við munum aldrei mætast. Það er samt gaman fyrir fólk að tala um þetta," sagði LeBron James en hann var valinn besti leikmaður NBA í fjórða sinn á síðustu leiktíð.

Jordan var fimm sinnum kosinn besti leikmaður NBA-deildarinnar og hefur auk þess fjóra fleiri meistaratitla en James. James er þó líklegur til að bæta við titlum á næstu árum.

Jordan var talsvert minni og léttari en James sem hefði örugglega háð honum í leiknum á móti James. Jordan var með 30,1 stig, 6,2 fráköst og 5,3 stoðsendingar að meðaltali í leik á sínum ferli en James er með meðaltöl upp á 25,1 stig, 6,6 fráköst og 6,0 stoðsendingar.

Hér fyrir neðan má sjá tvær samantektir frá mögnuðum ferli Michael Jordan með Chicago Bulls liðinu.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×