Yfirmenn hjá Snapchat hafa játað að hafa afhent lögregluyfirvöldum óopnuð snapchat-skilaboð í nokkur skipti á síðastliðnu ári.
Opnuð skilaboð eyðast út en óopnuð skilaboð geymast á netþjóni fyrirtækisins sem rekið er af Google í 30 daga. Þetta kemur fram á vefsíðu Gizmodo.
Á blogginu þar sem Snapchat skýrir frá þessu eru eftirfarandi ummæli frá Snapchat: „Síðan í maí 2013 hefur fyrirtækið fengið nokkrar beiðnir um afhendingu gagna og þegar leitarheimild hefur legið að baki beiðninni, þá hefur fyrirtækið afhent upplýsingar.“
Aðeins sé þó um örfá skipti að ræða, en heildarfjöldi snapchat-skilaboða á hverjum degi séu um 350 milljónir. Á blogginu kemur fram að Snapchat virðist afhenda yfirvöldum upplýsingar í mun færri tilvikum en Facebook, Google og Yahoo.
Snapchat afhendir skilaboð til lögreglunnar
