Körfubolti

Jakob með 24 stig í seinni hálfleik í sigri Drekanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Jakob Örn Sigurðarson.
Jakob Örn Sigurðarson. Mynd/Valli
Íslensku landsliðsmennirnir í liði Sundsvall Dragons voru mennirnir á bak við þriggja stiga útisigur á Solna Vikings, 93-90, í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld. Drekarnir fengu 49 stig, 16 fráköst og 13 stoðsendingar frá Íslendingunum sínum en enginn þeirra var betri en Jakob Örn Sigurðarson sem var hreinlega óstöðvandi í seinni hálfleiknum.

Jakob Örn Sigurðarson skoraði 29 stig þar af komu 24 þeirra í seinni hálfleiknum. Jakob var einnig með 3 stoðsendingar á félaga sína. Hlynur Bæringsson skoraði aftur á móti 14 af 20 stigum sínum í fyrri hálfleik og bætti við þau 9 fráköst og 3 stoðsendingar.

Ægir Þór Steinarsson náði ekki að skora en átti sjö stoðsendingar þar af þrjár þeirra á Jakob (2) og Hlyn (1). Ægir var einnig með 5 fráköst

Hlynur hitti úr 6 af 8 skotum sínum í leiknum og Jakob nýtti 9 af 14 skotum sínum og þeir félagar voru því með 68 prósent skotnýtingu saman (15 af 22).

Sundsvall Dragons var skrefinu á undan allan leikinn en náði aldrei að rífa sig almennilega frá Solna-liðinu. Sundsvall komst níu stigum yfir í öðrum leikhlutnum en var bara þremur stigum yfir í hálfleik, 43-40.

Jakob var allt í öllu á lokakafla leiksins og skoraði alls 16 stig af 28 stigum Sundsvall-liðsins í fjórða leikhlutanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×