Körfubolti

Jón Arnór valinn í lið umferðarinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson.
Jón Arnór Stefánsson. Mynd/Daníel
Jón Arnór Stefánsson er í liði umferðarinnar í spænsku úrvalsdeildinni í körfubolta en hann átti frábæran leik þegar lið hans CAI Zaragoza vann 86-82 útisigur á Río Natura Monbús í gær.

Þetta er mikill heiður fyrir íslenska landsliðsmanninn enda er ACB-deildin jafna talin vera sú næststerkasta í heimi á eftir NBA-deildinni í Bandaríkjunum.

Jón Arnór var valinn í liðið fyrir hugarfar en hinir fjórir í liðinu voru valdir fyrir leiðtogahæfni, framlag, gjafmildi og afgreiðslu.

Jón Arnór skoraði 28 stig á tæpum 23 mínútum í leiknum en hann hitti úr 7 af 10 skotum sínum þar af 6 af 9 skotum sínum fyrir utan þriggja stiga línuna. Jón Arnór nýtti líka öll átta vítin sín í leiknum.

Þeir sem voru einnig valdir í liðið voru þeir Blagota Sekulic (CB Canarias), Guillem Vives (FIATC Joventut), Nacho Martín (Herbalife Gran Canaria) og Romain Sato (Valencia Basket).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×