Körfubolti

Jón Arnór fór á kostum í sigri Zaragoza

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Jón Arnór fór á kostum í dag
Jón Arnór fór á kostum í dag MYND/RAMÓN CORTÉSWWWCAISTAS.NET
Jón Arnór Stefánsson fór mikinn þegar Cai Zaragoza lagði Rio Natura Monbus 86-82 á útivelli í spænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í dag.  Jón Arnór var lang stigahæstur á vellinum með 28 stig.

Jón Arnór fór á kostum í liði Zaragoza. Hann hitti úr eina tveggja stiga skoti sínu, sex af níu þriggja stiga skotum sínum og öllum átta vítaskotum sínum í leiknum á rétt tæplega 23 mínútum. Jón tók auk þess þrjú fráköst og gaf eina stoðsendingu en hann sýndi stáltaugar á vítalínunni þegar skammt var eftir af leiknum og gulltryggði sigurinn.

Zaragoza var með frumkvæðið allan leikinn þó spennuna hafi ekki vantað í hann. Zaragoza var fjórum stigum yfir eftir fyrsta leikhluta 19-15. Í hálfleik var munurinn kominn í tólf stig 46-34 Zaragoza í vil.

Monbus náði að minnka muninn í tvö stig í þriðja leikhluta en það munaði fimm stigum þegar einn leikhluti var eftir 65-60.

Monbus tókst aldrei að minnka muninn niður í meira en þrjú stig í fjórða leikhluta og Zaragoza gerði út um leikinn með vítum Jóns Arnórs í lokin eins og áður segir.

Zaragoza hefur nú unnið tvo af þremur leikjum sínum á tímabilinu en Monbus hefur tapað öllu þremur leikjum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×