Skoðun

Stuðningsgrein: Þannig er Guðbjartur

Dagur og Oddný skrifar
Formannskosning í Samfylkingunni er val milli tveggja jafnaðarmanna. Það er í eðli sínu gott val. Það getur hins vegar skipt máli fyrir framtíðina hver úrslitin verða.

Guðbjartur Hannesson tók við tveimur stórum ráðuneytum í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Heilbrigðisráðuneytið hafði verið kallað rafmagnsstóllinn og félagsmálaráðuneytið var orðið það óvinsælasta af þeim öllum. Guðbjartur mildaði niðurskurðartillögur, fór um landið og aflaði sparnaði skilnings og setti niður deilur. Það fór ekki mikið fyrir því en það bar árangur. Þannig stjórnmálamaður er hann.

Guðbjartur er einn virtasti skólamaður landsins og var skólinn hans, Grundaskóli, fyrstur grunnskóla til að fá hin íslensku menntaverðlaun. Það var fyrir brautryðjendastarf og nýsköpun, þar sem var hugsað út fyrir kassann og sérstök áhersla á nýja kennsluhætti og list- og verkgreinar. Guðbjartur, sem reyndar er aldrei kallaður annað en Gutti uppi á Skaga, náði þessum árangri með því að laða fram allt það besta í starfsmannahópnum og skapa liðsheild. Þannig stjórnandi er hann.

Guðbjartur er norrænn jafnaðarmaður með áherslu á frjálst og öflugt atvinnulíf og varðstöðu um velferð fyrir alla. Hann hefur ekki veigrað sér við að vinna að sparnaði og raunhæfum lausnum til að ná endum saman í ríkisfjármálum en stóð gegn hugmyndum um að frysta laun og bætur lífeyrisþega sem leið að því marki. Þannig jafnaðarmaður er hann.

Eða eins og einhver sagði: Ef Guðbjartur væri bílategund væri hann Volvo frekar en sportbíll. Ekki hraðskreiðastur en hann er traustur og öruggur, og endar ekki með þig úti í skurði. Hann er fulltrúi venjulegs launafólks, námsmanna, fjölskyldu- og barnafólks, eldri borgara og sjálfstæðra atvinnurekenda. Hann er fulltrúi hins venjulega Íslendings og gætir hagsmuna hans í hvívetna. Og þannig formaður verður hann.

Við treystum Guðbjarti til málefnalegrar forystu og til að leiða Samfylkinguna í stjórnarmyndun að afloknum kosningum. Við styðjum Guðbjart Hannesson til formanns.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×