Skoðun

Framsókn spillir samningsstöðu Íslands

Allir Íslendingar eru að sjálfsögðu sammála um að við útgreiðslur úr þrotabúum bankanna verði hagsmuna Íslands gætt í hvívetna. Um þetta var til að mynda alger pólitísk samstaða á Alþingi við breytingar á lögum um gjaldeyrishöft fyrr í vetur.

Því miður hefur Framsóknarflokkurinn hins vegar tekið sig til og lofað að verja hugsanlegum ávinningi íslenska ríkisins með ákveðnum hætti, einkum til að greiða niður skuldir manna sem þurfa ekki endilega á því að halda.

Þetta þýðir að komist Framsóknarflokkurinn til valda eftir kosningar vita núverandi eigendur föllnu bankanna (ýmist kallaðir „vogunarsjóðir“ eða „hrægammar“) að Framsóknarflokknum liggur á að semja. Að öðrum kosti á hann enga möguleika á að fjármagna kosningaloforð sín. Þeir vita líka að aðeins þarf að henda ákveðið mörgum íslenskum krónum í Framsóknarflokkinn til að hann telji sig geta efnt kosningaloforðin.

Sárgrætileg staða

En er ekki mikilvægt fyrir Ísland að fá einnig erlendan gjaldeyri úr samningum við eigendur gömlu bankana? Við þurfum að greiða gríðarlegar erlendar skuldir ríkissjóðs. Nú fer nær allur tekjuskattur, sem við launþegar greiðum um hver mánaðamót, í vaxtakostnað ríkissjóðs. Það er sárgrætileg staða þegar svo margt þarf að gera hér heima fyrir, sérstaklega í heilbrigðismálum. Framsókn telur mikilvægara að eyða stórum fjárhæðum, sem reyndar eru ekki enn einu sinni komnar í ausuna, hvað þá sopnar, í að hjálpa fólki sem margt hvert getur vel hjálpað sér sjálft, en að t.d. byggja upp Landspítalann úr þeim rústum sem hann er í eftir harkalegan niðurskurð síðustu ára.

Framsóknarflokkurinn hefur með þessari framkomu í kosningabaráttunni spillt samningsstöðu Íslands erlendis.

Ef ég væri „hrægammur“ myndi ég kjósa Framsóknarflokkinn.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×