Körfubolti

NBA í nótt: Toppliðin töpuðu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
NBA-liðin frá New York-borg halda áfram að gera það gott en í nótt vann Knicks sigur á meisturunum í Miami Heat á heimavelli.

New York vann, 102-92, og þar með sinn þriðja sigur í röð. Brooklyn Nets hefur einnig verið á fínu skriði en tímabilið byrjaði illa hjá báðum þessum liðum.

Carmelo Anthony skoraði 29 stig og Andrea Bargnani bætti við nítján. New York komst á góðan sprett í lok þriðja leikhlutans og náði Miami aldrei að brúa bilið aftur.

LeBron James skoraði 32 stig fyrir Miami en þeir Mario Chalmers og Shane Battier misstu báðir af leiknum vegna meiðsla. Chris Bosh náði sér ekki á strik í nótt og nýtti aðeins þrjú af tíu skotum sínum.

Miami er enn í efsta sæti Austurdeildarinnar með örlítið forskot á Portland og Oklahoma City.



Í hinum leik næturinn vann Denver sigur á Oklahoma City, 101-88, en síðarnefnda liðið hefur nú tapað fimm af síðustu tíu leikjum sínum í deildinni. Oklahoma City hafði fyrir það aðeins tapað fjórum leikjum allt tímabilið.

Randy Foye skoraði 24 stig fyrir Denver sem vann sinn fjórða leik í röð eftir að hafa tapað átta í röð þar á undan. Kevin Durant skoraði 30 stig fyrir Oklahoma City.

Úrslit næturinnar:

New York - Miami 102-92

Denver - Oklahoma City 101-88

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×