Körfubolti

„Hlynur reddaði þessu“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hlynur í landsleik með Íslandi í Laugardalshöll.
Hlynur í landsleik með Íslandi í Laugardalshöll. Vísir/Stefán
Sundsvall Dragons marði sigur á Uppsala Basket 99-97 í framlengdum leik í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld. Þrír Íslendingar komu við sögu.

Hlynur Bæringsson var bæði stoðsendingahæstur (5) og frákastahæstur (7) í liði heimamanna sem leiddu með sextán stigum fyrir lokafjórðunginn. Gestirnir sneru þó við blaðinu í fjórða leikhluta og leiddu undir lok hans 90-87 þegar fimm sekúndur voru eftir.

Jakob Örn Sigurðarson fékk þá tvö vítaskot. Hann skoraði úr fyrra skotinu en hið síðara missti marks. Hlynur náði hins vegar frákastinu, blakaði boltanum ofan í og jafnaði leikinn í 90-90. Því þurfti að framlengja. 

Jakob Örn staðfesti í samtali við Vísi að hann hefði klúðrað síðara vítinu viljandi.

„Já, ég þurfti að klikka því það var svo lítið eftir. Svo reddaði Hlynur þessu,“ sagði Jakob Örn. „Það er ótrúlegt að hann hafi náð að blaka boltanum ofan í.“

 

Í framlengingunni höfðu heimamenn svo betur og tryggðu sér stigin tvö.

Jakob Örn spilaði 39 mínútur og skoraði 14 stig. Ægir Þór Steinarsson spilaði 14 mínútur og skoraði fimm stig en kappinn hefur verið frá keppni síðan í nóvember.

Sundsvall Dragons er í fjórða sæti deildarinnar með 30 stig en Uppsala Basket í því sjötta með 26 stig. Tölfræðina úr leiknum í kvöld má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×