Bayern München liðið hans Pep Guardiola er farið að líkjast mikið liði Barcelona þegar það var upp á sitt besta hvað varðar það að vera mikið með boltann og senda ótrúlegan fjölda sendinga í leikjum sínum.
Bæjarar bættu sendingametið í Meistaradeildinni í 2-0 sigrinum á Arsenal í gær en yfirburðir Bayern-liðsins voru algjörir eftir að Arsenal missti mann af velli á 37. mínútu leiksins og þýska liðið var alls með boltann 78,8 prósent leiktímans.
Leikmenn Bayern reyndu alls 863 sendingar í leiknum og 95 prósent þeirra heppnuðust. Ekkert lið hefur náð þvílíku hlutfalli heppnaðra sendinga síðan að slík tölfræði var fyrst tekin saman í Meistaradeildinni tímabilið 2003-04.
Bayern-liðið reyndi 641 fleiri sendingu í leiknum en Arsenal-liðið og allir tólf útileikmenn Arsenal voru samanlagt með jafnmargar heppnaðar sendingar og Toni Kroos í liði Bayern (147).
Það er hægt að sjá tölfræði úr leiknum í samantekt BBC sem nálgast má hér.
Bæjarar settu magnað sendingamet á móti Arsenal í gær
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið






Uppgjörið: KR - ÍA 5-0 | Skemmtikraftarnir slógu ekki slöku við
Íslenski boltinn


„Kom bara í hörkustandi inn í þennan leik“
Íslenski boltinn

