Körfubolti

Drekarnir unnu stórsigur á botnliðinu | Besti leikur Ægis Þórs

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sundsvall Dragons átti ekki neinum vandræðum með að pakka botnliði ecoÖrebro saman, 81-64, í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld. Botnliðið var reyndar yfir eftir fyrsta leikhluta, 22-18, en eftir það tóku heimamenn öll völd á vellinum.

Ægir Þór Steinarsson, sem er nýbyrjaður að spila aftur eftir meiðsli, átti sinn besta leik fyrir Sundsvall í kvöld en hann skoraði 20 stig og gaf tvær stoðsendingar. Hann var með 57 prósent skotnýtingu í teignum og skoraði úr fjórum af sex þriggja stiga skotum sínum.

Jakob Örn Sigurðarson var næststigahæstur Drekanna með 17 stig auk þess sem hann tók fimm fráköst og gaf tvær stoðsendingar en hann var reyndar ískaldur fyrir utan þriggja stiga línuna. Jakob setti aðeins einn þrist í níu tilraunum.

Hlynur Bæringsson spilaði rétt rúmar 30 mínútur eins og allir hinir Íslendingarnir. Hann var tiltölulega rólegur í kvöld og lét sér nægja sjö stig og átta fráköst.

Sundsvall er áfram í fjórða sæti deildarinnar með 38 stig en er nú aðeins tveimur stigum stigum frá Norrköping Dolphins sem eru í þriðja sæti. Höfrungarnir töpuðu fyrir toppliði Södertälje Kings í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×