Vefrisinn Google hefur nú gefið út app fyrir snjallsíma, spjaldtölvur og fartölvur sem streymir ljósmyndum á Chromecast, margmiðlunarveitu þeirra. Los Angeles Times segir frá.
Forritið, sem heitir Photowall (ísl. Myndaveggur), er nýjasta innlegg Google í forritasyrpu sem þeir kalla Google Experiments (ísl. Google-tilraunir), en með syrpunni stefnir fyrirtækið að því að veita sjálfstætt starfandi forriturum innblástur til að skrifa forrit fyrir margmiðlunarveitu sína.
Hugmyndin á bak við Photowall er sú að ljósmyndum sé varpað beint á sjónvarp, til að mynda í samkvæmum eða fjölskylduboðum. Þannig geti allir notið ljósmyndanna á sama tíma, í stað þess að snjallsími sé látinn ganga frá manni til manns.
Notkun er einföld. Maður tengist einfaldlega Chromecast-veitunni og velur svo þær myndir sem maður vill að birtist á skjánum. Einnig getur maður teiknað á ljósmyndinar líkt og samskiptaforritið vinsæla Snapchat býður upp á.
