Innlent

Óþarft að krefjast rafrænna skilríkja

Heimir Már Pétursson skrifar
Vísir/Hörður/Pjetur
Formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis telur algerlega óþarft að krefjast þess að umsækjendur um lækkun höfuðstóls húsnæðisskulda þurfi að hafa rafræn skilríki til að staðfesta útreikninga á lækkun lánanna. Þúsundir og jafnvel tugþúsundir manna gætu þurft að verða sér út um slík skilríki á örfáum vikum verði þetta skilyrði sett.

Rúmlega 69 þúsund umsóknir bárust Ríkisskattstjóra um lækkun höfuðstóls húsnæðisskulda en umsóknarfrestur rann út um síðustu mánaðamót. Starfsmenn Ríkisskattstjóra vinna nú að útreikningum en þegar þeim er lokið fá umsækjendur niðurstöðuna og þurfa að staðfesta hana.

Ríkisskattstjóri gerir þá kröfu að staðfestingin fari fram með rafrænum skilríkjum, en það gæti þýtt að þúsundir og jafnvel tugþusundir manna þyrftu að verða sér út um slík skilríki á nokkrum vikum.

Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar, segir þessa kröfu koma honum á óvart.

„Ég sé ekki og hef ekki séð rök fyrir því að þetta sé nauðsynlegt, en því er haldið fram,“ segir Frosti

Frosti segir margar aðrar ódýrari og hentugri leiðir til vilji menn auka öryggið varðandi staðfestingu útreikninganna. Hann telur þó að þetta ætti ekki að tefja framkvæmd skuldaniðurfellingarinnar.

„Ég veit ekki hvort að það myndi tefja, en það er alveg áreiðanlega og augljóslega óþægindi af þessu og að mínu mati eru þetta óþarfa óþægindi. Þess vegna er það gagnrýnisvert,“ segir Frosti Sigurjónsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×