Innlent

Hafna öllum hugmyndum um að ríkið reisi áburðarverksmiðju

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Það eru ekki allir sammála Þorsteini um að ríkið eigi að kanna möguleika á áburðarverksmiðju.
Það eru ekki allir sammála Þorsteini um að ríkið eigi að kanna möguleika á áburðarverksmiðju. Vísir / Daníel
Ungir sjálfstæðismenn mótmæla harðlega tillögu nokkurra Framsóknarmanna um að ríkið kanni hagkvæmni og möguleika þess að reisa áburðarverksmiðju hér á landi. „Það er ekki í verkahring ríkisins að standa að rekstri slíkrar verksmiðju og þá er erfitt að sjá hvernig ríkisáburðarverksmiðja geti vakið „ungum Íslendingum von í brjósti”, eins og segir í greinargerð sem fylgir þingsályktunartillögu þingmannanna,“ segir í ályktun stjórnar Sambands ungra sjálfstæðismanna, SUS.

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknar, og sex aðrir félagar hans lögðu fram tillöguna í gær. Þetta er í annað sinn sem hópurinn leggur fram tillögu um áburðarverksmiðju. Í greinargerð þingsályktunartillögunnar segir að hópur áhugamanna um byggingu áburðarverksmiðju hafi gert frumáætlun um byggingu verksmiðju sem framleiða mundi 700 þúsund tonn af áburði og 700 þúsund tonn af kalsíumklóríði. Samkvæmt henni sé kostnaður við byggingu verksmiðjunnar um 120 milljarðar króna.

Í ályktun SUS segir að ráðist ríkið í verkefnið yrði öll fjárfestingin á áhættu skattgreiðenda. „Gangi áætlanirnar eftir gæti það enn fremur þýtt að níðþungar skuldir ríkisins aukist um allt að 8%,“ segir í ályktuninni. „Ungir sjálfstæðismenn leggja áherslu á að atvinnulífið verði leyst úr viðjum ríkisafskipta, svo sem hárra skatta, gjaldeyrishafta og íþyngjandi reglugerða, þannig að einkaframtakið fái að njóta sín. Öllum hugmyndum um að ríkið reisi áburðarverksmiðju er því hafnað.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×