Veðurspár gefa til kynna að hár styrkur brennisteinsgasa gæti orðið á norðanverðum Austfjörðum, Fljótsdal, Héraði, Jökuldal og Vopnafirði. Fram kemur í tilkynningu frá Almannavörnum að ef fólk finni fyrir óþægindum sé mælt með því að það halda sig innandyra, loki gluggum og slökkvi á loftræstingu.

Jarðskjálftavirkni í öskju Bárðarbungu breytist lítið frá degi til dags. Skjálftarnir dreifast einkum um norður- og suðausturhluta öskjumisgengisins. Skjálfti af stærðinni 5,3 varð rétt eftir miðnætti.
Dregið hefur nokkuð úr skjálftum við norðurenda kvikugangsins. Rúmlega 30 skjálftar hafa mælst frá miðnætti. Órói virðist vera svipaður og undanfarna daga.
Í tilkynningunni segir að GPS mælingar sýni óverulegar jarðskorpuhreyfingar þannig að kvikustreymi inn í ganginn virðist haldast svipað og útstreymi í gosinu í Holuhrauni. Þegar litið er yfir tímabilið frá því gos hófst má hins vegar greina hreyfingar í átt að Bárðarbungu sem benda til áframhaldandi sigs í öskjunni.
Þrír möguleikar eru taldir áfram líklegastir um framvindu:
• Öskjusig í Bárðarbungu hættir áður en það verður mikið og gosið í Holuhrauni fjarar út.
• Stórt öskjusig í Bárðarbungu. Gos í Holuhrauni verður langvinnt eða vex. Mögulegt að sprungan lengist til suðurs inn undir Dyngjujökul og valdi jökulhlaupum og gjóskufalli. Einnig er mögulegt að sprungur opnist annar staðar undir jöklinum.
• Stórt öskjusig í Bárðarbungu og gos í öskjubroti. Slíkt gos gæti brætt mikinn ís og valdið verulegu jökulhlaupi.
Litakóði fyrir flug er áfram appelsínugulur fyrir Bárðarbungu en kóða fyrir Öskju hefur verið breytt í grænt.
Á fundinum sátu vísindamenn frá Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans ásamt fulltrúum frá Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra. Fundinn sátu jafnframt Sóttvarnarlæknir og fulltrúi Umhverfisstofnunar.