Innlent

"Ríkisstjórn ríka fólksins“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. vísir/gva
„Ríkisstjórn ríka fólksins, sér sem fyrr um sína. Það verður æ ljósara. Verkefnið er að koma henni frá og knýja fram stjórnarstefnu í þágu þjóðarinnar allrar. Við eigum betra skilið.“ Þetta sagði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í kvöld. Fór hann hörðum orðum um starfandi ríkisstjórn og breytingar á fjárlagafrumvarpinu sem kynnt var í gær.

Í fjárlagafrumvarpinu er áætlað að lægra þrep virðisaukaskatts hækki úr sjö prósentum í tólf og efra þrepið lækki úr 25,5 prósentum í 24 prósent. Það þýðir að virðisaukaskattur á matvæli hækkar um fimm prósentustig. Árni Páll gagnrýndi það harðlega.

„Í fjárlagafrumvarpinu er fundið upp á því nýmæli að hækka hollan mat en gera óhollustu ódýrari. Tekjur af nýjum álögum á hollan mat og menningu eiga að fara til að lækka vörugjöld á flatskjái og klósett. Á móti á að hækka barnabætur lítillega, en ríkisstjórnin lækkaði þær verulega í fyrra og boðuð hækkun vegur ekki einu sinni þá lækkun upp,“ sagði Árni.

Þá telur hann þessa hækkun koma sér einstaklega illa fyrir barnlaust launafólk sem og barnafjölskyldur, en samkvæmt greiningu sem unnin var fyrir fjármálaráðuneytið mun matarkostnaður fjögurra manna fjölskyldu, þar sem annað barnið er yngra en sjö ára, mun hækka um 42.240 krónur á ári.

„Barnlaust launafólk jafnt og barnafjölskyldur munu því bera hækkunina óbætta. Samt kiknar Framsóknarflokkurinn í hnjánum og virðist ætla að beygja sig í duftið til þess að matarskatturinn nái fram að ganga.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×