Argentínskir knattspyrnuspekingar eru þó margir á því að Messi hafi þegar náð toppi ferilsins en enska blaðið FourFourTwo leitaði til manna sem hafa fylgst vel með Messi í gegnum tíðina.
„Ég tel að við höfum séð það besta frá Messi. Árin taka toll af okkur öllum og við sjáum Messi ekki á ofurhraða aftur. Hann hefur þegar spilað hundruð leikja á stóra sviðinu. Ég sé fyrir mér að Messi verði fljótlega meira að skapa fyrir aðra en að skora sjálfur," sagði Hernan Claus sem skrifar um argentínska landsliðið fyrir argentínska blaðið Olè.
„Oftast gleymum við því að Messi er manneskja. Við búumst alltaf við því að hann geri hið ómögulega. Það sættir sig enginn við það að hann eigi lélega leiki og þegar það gerist þá tala fjölmiðlarnir um krísuástand. Við njótum þess að sjá hann spila en Messi er nú bara leikmaður sem skorar „bara“ 25 mörk á tímabili," sagði Federico Bassahun, ritstjóri hjá Don Julio tímaritinu.

Lionel Messi er með 5 mörk og 7 stoðsendingar í 6 fyrstu leikjum sínum í spænsku úrvalsdeildinni og lagði upp sigurmark Barcelona-liðsins í fyrsta Meistaradeildarleiknum.
Messi verður í sviðsljósinu í kvöld þegar Barcelona heimsækir Paris Saint Germain í Meistaradeildinni en leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og Stöð 2 Sport HD frá klukkan 18.45 í kvöld en á undan verður farið yfir leiki kvöldsins í upphitunarþætti Meistaradeildarinnar.