„Hvers vegna er móðan frá eldstöðvunum í Holuhrauni blá?“ spyr eldfjallafræðingurinn Haraldur Sigurðsson í pistli sem hann skrifar á heimasíðu sína. Með pistlinum birtir hann mynd NASA af gosstöðvunum úr geimnum þar sem sjá má bláan reyk frá Holuhrauni.
„Hún er reyndar blá á sama hátt og himininn er blár. Litur á efni eða hlut er að mestu leyti ákvarðaður af því hvernig efnið drekkur í sig litrófið,“ segir Haraldur.
„Móðan frá eldgosinu samanstendur af bæði dropum, mólekúlum og gaskenndum frumefnum, sem dreifa og drekka í sig litróf sólarljóssins á ýmsan hátt. En eldfjallsmóðan drekkur ekki í sig bláa hluta litrófsins og því er móðan bláleit.“
Haraldur segir mynd NASA vera þá bestu sem tekin hafi verið af hrauninu.
„Dyngjujökull er í suðri, í norðri er Askja, með Öskjuvatn og þar skammt frá er dyngjan Vaðalda. Rétt fyrir vesta Holuhraun er dyngjan Urðarháls í norður rönd Dyngjujökuls og þar rétt hjá er Kistufell. Móðuna ber til austurs, en takið eftir að móðan kemur öll upp frá virku gígunum, ekki hinu rennandi hrauni, sem streymir í norðaustur átt.“
Hvers vegna er móðan frá Holuhrauni blá?
Samúel Karl Ólason skrifar
