Stór olíulind sem sænska olíuleitarfélagið Lundin fann í Barentshafi í síðustu viku er talin geta orðið vendipunktur í uppbyggingu olíuiðnaðar í Norður- Noregi. Olíulindin er 190 kílómetra norðvestur af Hammerfest og er talin geyma allt að 314 milljónir olíutunna og 17 milljarða rúmmetra af gasi.
Olíulindin er á svokölluðu Alta-svæði og er nálægt öðrum nýfundnum olíulindum undan ströndum Norður-Noregs, eins og Johan Castberg og Gotha-lindunum. Saman eru þær taldar geyma allt að 1.000 milljónir olíutunna.
Í fréttum norskra fjölmiðla síðustu daga hafa áhrifamenn í olíuiðnaðinum sem og í Norður-Noregi fagnað olíufundinum. Hann komi á besta tíma eftir vonbrigði sumarsins í olíuleit í Barentshafi. Með samnýtingu olíusvæðanna er sagður kominn grundvöllur að neðansjávarleiðslu til lands og iðnaðaruppbyggingu í nyrstu byggðum Noregs, eins og olíuhöfn á Veidnes við Honningsvåg. Í héraðsmiðlum er lýst mikilli bjartsýni.
Statoil frestaði fyrr á árinu ákvörðun um leiðsluna og olíuhöfnina þar sem olían sem þá var fundin þótti ekki nægilega mikil til að standa undir fjárfestingunni. Með olíufundinum í síðustu viku er staðan sögð allt önnur.
Greenpeace-samtökin samgleðjast þó ekki. „Þeir geta fagnað eins og þeim sýnist. En þetta er samt sem áður olía sem við höfum ekki efni á að vinna. Loftlagsmálin krefjast þess að hún verði látin liggja. Allt annað væri mjög óábyrgt,“ sagði Truls Gulowsen, leiðtogi Greenpeace í Noregi.

