David Moyes hefur verið orðaður við stjórastöðuna hjá Real Sociedad á Spáni en félagið rak Jagoba Arrasate í gær.
Alfreð Finnbogason er á mála hjá Real Sociedad sem hefur byrjað illa á tímabilinu á Spáni og er í fallsæti með aðeins einn sigur í fyrstu tíu leikjum tímabilsins. Liðið féll þar að auki úr leik í forkeppni Evrópudeildar UEFA í sumar.
Moyes hefur verið atvinnulaus síðan hann var rekinn frá Manchester United í apríl eftir tæpt tímabil í starfi. Hann var þar áður knattspyrnustjóri Everton í ellefu ár.
Undir stjórn Arrasate náði Real Sociedad sjöunda sæti spænsku úrvalsdeildarinnar í vor en liðið hefur ekki unnið leik síðan í 2. umferð deildarinnar er það vann óvæntan 4-2 sigur á Real Madrid, sem nú situr á toppi deildarinnar.
Alfreð missti af upphafi tímabilsins vegna meiðsla en hefur komið við sögu í síðustu sex deildarleikjum liðsins, þar af tvívegis sem byrjunarliðsmaður.
Verður David Moyes næsti stjóri Alfreðs?
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Mest lesið



Yngsti markaskorari efstu deildar: „Langaði í annað“
Íslenski boltinn







Kristian Nökkvi skoraði og lagði upp
Fótbolti