Innlent

Öxnadalsheiði lokuð og hálka víða

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Hálka eða snjóþekja er í öllum landshlutum.
Hálka eða snjóþekja er í öllum landshlutum. VÍSIR/PJETUR
Vegur um Öxnadalsheiði er lokaður en hálka er víða um land, samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni. Hálka eða snjóþekja er í öllum landshlutum.

Snjóþekja er á flestum leiðum á Suðurlandi en hálka er á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum og hálka eða snjóþekja á flestum öðrum leiðum á Suðurlandi. Þæfingsfærð er á Þingskálavegi en þungfært efst á Skeiðavegi og Landvegi.

Á Vesturlandi er flughált á Norðanverðu Snæfellsnesi og óveður en þæfingur og skafrenningur á Bröttubrekku. Hálka er annars á vel flestum vegum, samkvæmt Vegagerðinni. Þá er flughálka víða á Vestfjörðum; þungfært á Steingrímsfjarðarheiði og þæfingur á Þröskuldum og Mikladal en annars er hálka á vel flestum  vegum.

Á Norðvesturlandi er flughált frá Blönduósi og inn Langadal. Öxnadalsheiði er lokuð  og hálka eða snjóþekja á vel flestum leiðum. Á Norðausturlandi er svo þæfingur á Grenivíkurvegi en þungfært og óveður er frá Þelamörk út að Hjalteyri. Þungfært er á Hólasandi, þæfingur er á Mývatnsöræfum  annars er hálka eða snjóþekja á vel flestum vegum.

Hálka eða snjóþekja er á vegum á Austur- og Suðausturlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×