Sænski vörubílaframleiðandinn Scania blés í gær til blaðamannafundar í Stokkhólmi þar sem fulltrúar úr stjórn félagsins upplýstu að hafnað hefði verið yfirtökutilboði frá Volkswagen, stærsta bílaframleiðanda Evrópu.
Tilboðið, sem var upp á 6,7 milljarða evra, segir stjórn Scania að hafi ekki endurspeglað raunverulegt virði félagsins. Upphæðin samsvarar tæplega 1.052 milljörðum íslenskra króna.
Frá því var greint á vef Financial Times í gær að Volkswagen hafi hafnað því að hækka boð sitt í félagið, en tilboðið nær bara til þess hluta sem Volkswagen hefur ekki þegar komið höndum yfir.
Volkswagen á 63 prósent hlutafjár og vill auka samstarf við vörubílaframleiðslu MAN, sem er í eigu Volkswagen.
Miðað við tilboð Volkswagen er Scania allt rúmlega 2.840 milljarða króna virði
Scania hafnar þúsund milljarða yfirtökutilboði Volkswagen
