Innlent

Aðgerðir um íslensku í upplýsingatækni á eftir áætlun

Bjarki Ármannsson skrifar
Eiríkur Rögnvaldsson hefur lengi bent á mikilvægi þess að hægt sé að nota íslensku í hinum stafræna heimi.
Eiríkur Rögnvaldsson hefur lengi bent á mikilvægi þess að hægt sé að nota íslensku í hinum stafræna heimi. Vísir/Valli
Enn á eftir að skipa í nefnd sem leggja átti fram áætlun um aðgerðir til að gera íslensku gjaldgenga í stafrænni upplýsingatækni. Samþykkt var einróma á síðasta þingi að fela mennta- og menningarmálaráðherra að skipa í nefndina, sem átti að leggja áætlun sína fram í síðasta lagi þann 1. september síðastliðinn.

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, telur að íslenskan sé í hættu ef ekki er hægt að nota hana í stafrænu umhverfi.

„Það er margs konar hugbúnaður og gagnasöfn sem þarf að byggja upp til þess,“ segir Eiríkur. „Það liggur fyrir að einkafyrirtæki standa ekki fyrir því hér. Þannig að ef íslenskan á að vera gjaldgeng á þessu sviði, þá verður að kosta það að minnsta kosti að einhverju leyti með almannafé.“

Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu dróst verkefnið sökum mikilla anna en vonast er til að skipað verði í nefndina á næstunni. Eiríkur segir að tíminn sé nokkuð dýrmætur hvað þetta varðar.

„Það má svo sem segja að það skipti ekki sköpum, einhverjir mánuðir til eða frá, en það er mikilvægt að koma þessu af stað,“ segir Eiríkur.

Ályktunin var samþykkt á Alþingi þann 12. maí. Hún felur í sér að sérfræðingar í málvísindum og upplýsingatækni skili áætlun sem innihaldi tímasett yfirlit um aðgerðir til að stuðla að notkun íslensku á vettvangi stafrænnar upplýsingatækni, kostnaðarmat og fjármögnun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×