Innlent

Kalla eftir skýrari stefnu

Guðmundur Steingrímsson segir í raun bara tvo kosti í stöðunni í peningamálum.
Guðmundur Steingrímsson segir í raun bara tvo kosti í stöðunni í peningamálum. fréttablaðið/stefán
Guðmundur Steingrímsson vill að ríkisstjórnin móti stefnu til framtíðar í gjaldmiðilsmálum. Í stefnunni komi fram hver eigi að vera framtíðargjaldmiðill Íslands. Hann hefur ásamt nokkrum öðrum þingmönnum flutt tillögu þessa efnis á Alþingi.

Í greinargerð með tillögunni segir að kostir Íslands í gjaldmiðilsmálum séu þó nokkrir. „Þar er ég að vísa í skýrslu Seðlabankans um málið sem mér sýnist vera afar vönduð,“ segir Guðmundur í samtali við Fréttablaðið.

„Menn þurfa nú samt ekki að vera langskólagengnir til þess að átta sig á því að það eru í raun aðeins tveir kostir,“ segir hann. Annaðhvort sé það að vera áfram með krónuna eða ganga í Evrópusambandið, ganga í ERM II-samkomulagið og taka upp evru í framhaldinu. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, segist ekki hafa skoðað tillögu þingmanna Bjartrar framtíðar og þess vegna ekki tekið afstöðu til hennar. „Mér finnst við þurfa að velta fyrir okkur og fara í það að aflétta þessum gjaldeyrishöftum og vinna okkur út úr þeim vanda sem við blasir þar áður en við förum að fara í vinnu við breytingu á peningastefnunni,“ segir hún.

Ragnheiður segir að það sé í gangi ákveðin peningastefna. „Og það er í gangi vinna um breytingar á lögum um Seðlabankann þar sem þessi mál verða væntanlega öll tekin fyrir.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×