Innlent

Færð á vegum spilltist og flug lá niðri í gær

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Fjöldi ökumanna lenti í klandri sökum ófærðar.
Fjöldi ökumanna lenti í klandri sökum ófærðar. vísir/stefán
Óveður gekk yfir landið í gær með tilheyrandi ofankomu. Um tíma var öllum leiðum til og frá höfuðborginni lokað. Nær öllu innanlandsflugi var aflýst snemma morguns en vonast er til þess að það geti hafist á ný í dag.

„Það er fyrirtækjanna að meta hvort þau lendi eður ei,“ segir Guðni Sigurðsson, talsmaður Isavia, en þrjú erlend félög felldu niður flugferðir til landsins. Fólki gekk þó illa að koma sér til og frá flugvellinum þar sem Reykjanesbrautin var lokuð fram eftir degi.

„Flugi til Kaupmannahafnar seinkaði mjög þar sem áhöfnin átti í erfiðleikum með að ferðast á völlinn,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair. Hann segir að öll flug félagsins hafi farið af stað en talsvert hafi verið um tafir en þó ekkert umfram það sem viðbúið er þegar færðin er slík.

Færð var slæm í efri byggðum höfuðborgarsvæðisins og brugðu einhverjir á það ráð að skilja bíla sína eftir mannlausa eftir að hafa fest þá í fönninni. Tafði það snjómokstur talsvert.

Á annað hundrað björgunarsveitarmenn sinntu útköllum sem flest sneru að því að aðstoða ökumenn sem lent höfðu í klandri og að aðstoða lögreglu við lokanir á vegum. Þó var eitthvað um útköll vegna fjúkandi hluta og björgunarmenn aðstoðuðu leikskólabörn í Guðríðarskóla við að komast leiðar sinnar.


Tengdar fréttir

Ófært í efri byggðum Kópavogs

Ófært er í efri byggðum Kópavogs, starfsmenn þjónustumiðstöðvar eru búnir að loka við Fífuhvammsvegi / Salaveg og Lindakirkju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×