Upprunalegi pakkinn innihélt 400 grömm af kaffi en nýju pakkarnir innihalda einungis 70 grömm. Heildarþyngd skuldarinnar er því komin í 560 grömm. Sumum finnst þetta nú vera frekar ósvífið að lána einn pakka af kaffi og heimta 8 pakka til baka. Er ekki einhver forsendubrestur hér? Forsendan sem brást var að stærð pakkanna breyttist. Það var enginn vegur fyrir samningsaðila að sjá það fyrir að eftir 10 ár yrðu kaffipakkarnir miklu minni. Einungis var hægt að skilgreina upphaflega lánið í þeirri pakkastærð sem fáanleg var í kjörbúðinni á lántökudegi.

Vilja raunmagnið endurgreitt
Þegar horft er á kaffipakkana er ekki alveg auðvelt að sjá hve mikið innihaldið í þeim hefur minnkað. Margir gjaldmiðlar, eins og t.d. íslenska krónan, hafa minnkað í rykkjum í tímans rás. Í tilfelli kaffisins er til stöðluð mælieining, gramm, sem mælir raunmagn kaffisins. Þannig má mæla raunmagnið í kaffipökkunum. Í verðtryggðum lánum er oft notast við vísitölu neysluverðs til að mæla raunvirði gjaldmiðils. Hagstofan reiknar neysluvísitölu sem notuð er til að mæla raunmagnið í gjaldmiðlinum. Þeir sem lána vilja fá raunmagn sitt endurgreitt og þóknun fyrir tíma og áhættu. Hugsanlega þarf að bæta við áhættuþóknun fyrir rykkjótta þróun í stærð kaffipakkanna.
Verðtryggð lán eru samningur um sjálfvirkan framtíðarlánsrétt á hluta vaxtanna. Endurlánað er fyrir þeim þætti er svarar til rýrnunar raunmagnsins í gjaldmiðlinum. Þessi endurfjármögnun er sjálfvirk og sparar því málsaðilum ferðir í bankann til að semja um ný lán. Upp úr 1980 voru algengir óverðtryggðir skuldabréfavextir í dönskum krónum rúmlega 20%. Það voru of háir vextir fyrir flesta og því nauðsynlegt að fá lán fyrir hluta þeirra vaxta og semja um nýtt lán og hækka þannig höfuðstólinn.
Raunvirði höfuðstólsins breytist oftast lítið. Það er aðallega gjaldmiðilinn sem minnkar. Danir settu því lög um verðtryggingu 1982. Sjálfvirknin sparar mikla vinnu og fyrirhöfn. Samningar, t.d. lánasamningar, verða að hafa viðmiðun á því augnabliki sem samningur er gerður. Eins og ágætur maður sagði: Fortíðin er dauð, framtíðin er óviss, við verðum að lifa í núinu. Ef samningar eru í kaffipökkum, þá eru þeir kaffipakkar sem fást núna eina nothæfa viðmiðunin. Væri óheiðarlegt að tiltaka hve mörg grömm væru í kaffipakkanum?