Innlent

Víða hálka

Stefán Árni Pálsson skrifar
Horfur um landið næsta sólarhringinn er suðlæg átt 10-18 metrar á sekúndu og skúrir eða él.
Horfur um landið næsta sólarhringinn er suðlæg átt 10-18 metrar á sekúndu og skúrir eða él. Vísir/Anton Brink
Hálkublettir eru á Reykjanesbraut og á höfuðborgarsvæðinu en hálka austur yfir Hellisheiði og Þrengsli. Hálka eða snjóþekja annars mjög víða á Suðurlandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Nokkur hálka er á Vesturlandi og snjóþekja á fjallvegum. Snjóþekja er einnig á vegum á Vestfjörðum og unnið að hreinsun á fjallvegum.

Á Norðurlandi er hálka eða hálkublettir á vegum en snjóþekja og snjókoma á Vatnsskarði. Siglufjarðarvegur er að mestu greiðfær og einnig er víða greiðfært á norðausturhorni landsins.

Hálka er á Jökuldal, Jökulsárhlíð og á Hróarstunguvegi en annars eru hálkublettir eða greiðfært á Austurlandi. Vegurinn frá Reyðarfirði með suðausturströndinni að Skaftafelli er að mestu orðin auður en þar fyrir vestan taka við hálkublettir.

Horfur um landið næsta sólarhringinn er suðlæg átt 10-18 metrar á sekúndu og skúrir eða él. Kólnandi veður. Suðaustan 10-18 með morgninum og slydda eða snjókoma með köflum, en heldur hægari og þurrt að mestu fyrir norðan. Suðvestan 15-23 seint í dag, hvassast sunnan til, dregur úr vindi þar í kvöld, en hvessir fyrir norðan.

Víða él, en úrkomulítið norðaustan til. Suðvestan 10-15 í nótt og á morgun og dálítil él, en þurrt að mestu norðan- og austanlands. Snýst i vaxandi suðaustan átt sunnan- og vestanlands síðdegis á morgun. Hiti kringum frostmark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×