Innlent

Björgunarmenn að störfum víða um land

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Björgunarsveitarfólk hefur haft í nógu að snúast í dag.
Björgunarsveitarfólk hefur haft í nógu að snúast í dag. vísir/vilhelm
Björgunarsveitir víða um land hafa farið í útköll í dag vegna veðurs. Fyrsta útkallið barst skömmu fyrir hádegi á Drangsnesi við Steingrímsfjörð. Þar hafði bæjarlækurinn tekið að flæða yfir bakka sína eftir að ræsi stíflaðist. Mikið vatn rann í kjallara frystihússins á staðnum. Björgungarsveit staðarins, í samvinnu við Vegagerðina, náði að leysa málið.

Um klukkustund síðar voru liðsmenn Strandar á Skagaströnd kallaðir út til að tryggja bát sem var að losna frá bryggju. Í hádeginu voru hjálpfúsar hendur kallaðar út á Ísafirði til að hindra að vatnselgurinn þar myndi valda miklu tjóni. Björgunarsveitin, bæjarstarfsmenn og slökkviliðið hafa reynt að ná tökum á ástandinu og síðdegis kom fólk frá Erni á Bolungarvík einnig til aðstoðar.

Ísafjörður er þó ekki eini staðurinn á Vestfjörðum þar sem vatnið hefur gert usla. Eftir hádegi var björgunarsveitin á Suðureyri kölluð út eftir að flæða fór inn í hús í bænum. Þegar hún var að ljúka því verki barst tilkynning um að farið væri að flæða í kjallara Sunnuhlíðar, sem er verslunarhúsnæði á Suðureyri. Dælingu þar lauk á fjórða tímanum.

Minna hefur verið um útköll á Suðurlandi en þau hafa þó verið einhver. Í einu þeirra valt björgunarsveitarbíll á Sólheimaheiði. Engan sakaði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×