Smokkar eru að verða gulls ígildi í Venesúela. Efnahagur landsins er í miklum vandræðum og þá sérstaklega vegna lækkandi olíuverðs, en getnaðarvarnir og þar á meðal smokkar hafa hækkað gífurlega í verði.
36 Trojan smokkar kosta nú um 750 dali, eða tæpar hundrað þúsund krónur.
Tíðni kynsjúkdóma og þungana meðal táninga í Venesúela er ein sú hæsta í Suður-Ameríku, samkvæmt vef Business Insider. Hátt verð getnaðarvarna hefur ekki áhrif á tíðni samfara meðal ungs fólks, en þess í stað er minna um öruggt kynlíf.
„Án smokka getum við ekkert gert,“ sagði Jhonathan Rodriguez framkvæmdastjóri StopHIV samtakanna í Venesúela, við Bloomberg. „Þessi skortur ógnar öllum okkar forvörnum, sem við höfum verið að vinna að um landið allt.“
36 smokkar kosta á við dýran snjallsíma
