Innlent

Búið að loka Hellisheiði og víðar

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Ekkert skyggni er víða á Suðurlandi segir lögreglan á Suðurlandi.
Ekkert skyggni er víða á Suðurlandi segir lögreglan á Suðurlandi. Vísir/Vilhelm
Búið er að loka Sandskeiði, Hellisheiði, Þrengslum og Mosfellsheiði vegna veðurs. Einnig er ófært um Krísuvík. Nokkrir ökumenn sitja fastir í bílum sínum.

Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar og í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi. Þar segir að skyggni á þessum slóðum sé ekkert. Hálka og snjóþekja er mjög víða á Suður- og Suðvesturlandi en varað hefur veri við því að þéttur éljagangur verði fram á nótt á þessu svæði.

Samkvæmt Vegagerðinni er snjóþekja og stórhríð á Holtavörðuheiði og snjóþekja og skafrenningur á Bröttubrekku. Snjóþekja og skafrenningur er einnig á Kleifaheiði, Steingrímsfjarðarheiði og Þröskulda. Þæfingsfærð og skafrenningur er frá Bjarnarfirði og norður að Gjögri einnig frá Brjámslæk og yfir Klettsháls.

Á Norðurlandi er víða greiðfært en hálka á Þverárfjalli, snjóþekja og skafrenningur á Vatnsskarði og hálka og éljagangur á Öxnadalsheiði. Hálkublettir eru frá Tjörnesi og austur á Þórshöfn. Um austanvert landið eru vegir hins vegar víðast hvar auðir með nokkrum undantekningum þar sem hálkublettir eru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×