Lagt var upp með sterkan varnarleik hjá okkar stúlkum en Svisslendingar fengu fín færi. Eftir hálftíma leik varði Sandra Sigurðardóttir frá leikmanni Sviss úr dauðafæri í teignum.
Skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks áttu svissnesku stúlkurnar svo skot í stöngina eftir varnarmistök Íslands. Markalaust var í hálfleik.
Eftir ellefu mínútna leik í síðari hálfleik komst svissneska liðið yfir með marki úr vítaspyrnu, en skömmu áður hafði Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir skotið framhjá úr fínu færi.
Á 64. mínútu var íslenska liðið nálægt því að jafna metin þegar hornspyrna Hallberu Gísladóttur fór í stöngina. Svisslendingar hreinsuðu boltann frá marki áður en Hólmfríður Magnúsdóttir komst að honum.
Svisslendingar bættu við marki nánast í næstu sókn með skot í stöngina og inn og staðan 2-0 þegar 25 mínútur voru eftir.
Margrét Lára Viðarsdóttir sneri aftur í landsliðið í dag, en hún hefur ekki spilað síðan í október 2013. Margrét vildi fá víti á 73. mínútu þegar hún var felld í teignum en ekkert var dæmt.
Margrét komst aftur í færi undir lok leiksins en náði ekki til boltans þegar hún var að sleppa í gegn. Lokatölur, 2-0.
Ísland mætir Noregi á föstudaginn og stórliði Bandaríkjanna á mánudaginn, en allir mótherjar Íslands eiga það sameiginlegt að vera að fara á HM í Kanada í júní.
Fylgst var með leiknum á Facebook-síðu KSÍ.
Ísland (4-5-1): Sandra Sigurðardóttir - Anna María Baldursdóttir, Glódís Perla Viggósdóttir (Arna Sif Ásgeirsdóttir 46.), Anna Björk Kristjánsdóttir, Lára Kristín Pedersen (Lára Kristín Pedersen 46.) - Fanndís Friðriksdóttir (Guðný Björk Óðinsdóttir 73.), Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Sara Björk Gunnarsdóttir (Margrét Lára Viðarsdóttir 65.), Ásgerður Stefanía Baldursdóttir (Dagný Brynjarsdóttir 65.), Hólmfríður Magnúsdóttir - Elín Metta Jensen (Guðmunda Brynja Óladóttir 53.).

