Fjarskipafyrirtækið Verizon hefur verið sektað um 3,4 milljónir dollara, tæplega hálfan milljarð króna af bandarísku fjarskiptastofnuninni FCC. The Verge greinir frá.
Í apríl á síðasta ári gátu um 11 milljón farsímanotendur hjá Verizon í sjö ríkjum Bandaríkjanna ekki hringt í neyðarlínuna. Verizon lét fjarskiptastofnunina ekki vita líkt og fyrirtækinu er skylt lögum samkvæmt.
Sektin nú er vegna þeirra 750 þúsund notenda í Kaliforníu sem ekki gátu hringt í neyðarlínuna. Talið er að 62 símtöl notenda Verizon í Kaliforníu hafi ekki náð til neyðarlínunnar vegna bilunarinnar.
Fyrirtækinu er nú gert að leggja fram áætlun um hvernig það muni fylgja reglum FCC í framtíðinni.
