Innlent

Átján prósent almennings treystir Alþingi

Stefán Árni Pálsson skrifar
Þeim fækkar um fimm prósentustig sem bera mikið traust til Alþingis, og eru nú 18%.
Þeim fækkar um fimm prósentustig sem bera mikið traust til Alþingis, og eru nú 18%. vísir/vilhelm
Almenningur ber mest traust til Landhelgisgæslunnar ef marka má nýjasta þjóðarpúls Capacent Gallup en rúmlega átta af hverjum tíu svarendum bera mikið traust til hennar.

Næst kemur lögreglan sem nýtur mikils trausts 77% landsmanna en það hlutfall er sex prósentustigum lægra en í fyrra.

Í þriðja sæti er Háskóli Íslands en 72% svarenda bera mikið traust til hans. 61 % almennings bera mikið traust til embætti sérstaks saksóknara og þar á eftir kemur heilbrigðiskerfið en sex af hverjum tíu bera mikið traust til þess.

Traust til umboðsmanns Alþingis hækkar um sjö prósentustig, en 54% bera mikið traust til hans, og 53% bera mikið traust til ríkissaksóknara.

mynd/capacent gallup


Athygli vekur á því að þeim sem bera mikið traust til ríkissáttasemjara fjölgar um heil 13 prósentustig og eru nú 51%.

Um 43% bera mikið traust til embættis forseta Íslands og sama hlutfall til dómskerfisins, 36% bera mikið traust til þjóðkirkjunnar, 31% til borgarstjórnar Reykjavíkur, 29% til Seðlabankans, 28% til umboðsmanns skuldara og 21% til Fjármálaeftirlitsins. Þeim fækkar um fimm prósentustig sem bera mikið traust til Alþingis, og eru nú 18%, en 12% bera mikið traust til bankakerfisins.

Almenningur var spurður um traust sitt til ýmissa stofnana samfélagsins og voru sömu stofnanir í þremur efstu sætunum og síðustu ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×