Körfubolti

Jón Arnór og félagar unnu síðasta Evrópuleikinn í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson.
Jón Arnór Stefánsson. Vísir/Getty
Jón Arnór Stefánsson og félagar hans í spænska liðinu Unicaja Malaga fögnuðu sigri í lokaleik sínum í sextán liða úrslitum Eurolegue, sem er Meistaradeild körfuboltans í Evrópu.

Unicaja Malaga vann 93-84 sigur á spænska liðinu Laboral Kutxa Vitoria en hvorugu liðinu tókst að komast í átta liða úrslitin.

Unicaja var 20-16 yfir eftir fyrsta leikhlutann, sjö stigum yfir í hálfeik (43-36) og með ellefu stiga forskot fyrir lokaleikhlutann, 70-59. Sigurinn var því nokkuð sannfærandi.

Jón Arnór var með átta stig, fjórar stoðsendingar og fjórar villur á rúmum sextán mínútum í leiknum en hann hitti 3 af 5 skotum utan af velli og öðru víta sinna.

Bandaríkjamaðurinn Ryan Toolson var stigahæstur hjá Unicaja með sautján stig og leikstjórnandinn og landi hans, Jayson Granger, var með fimmtán stig og sex stoðsendingar.

Unicaja Malaga vann fjóra af fjórtán leikjum sínum í þessum átta liða riðli en í átta liða úrslitin komust CSKA Moskva frá Rússlandi, Fenerbahce frá Tyrklandi, Olympiacos fá Grikklandi og Anadolu Efes frá Tyrklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×