Körfubolti

Drekarnir í vondum málum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlynur Bæringsson.
Hlynur Bæringsson. Vísir/Valli
Sundsvall Dragons tókst ekki ekki að fylgja eftir sigri í síðasta leik og er nú komið 3-1 undir á móti deildarmeisturum Södertälje Kings í undanúrslitum sænsku úrslitakeppninnar í körfubolta.

Södertälje Kings vann öruggan 23 stiga sigur á Sundsvall Dragons í kvöld, 94-71, en leikurinn fór fram á heimavelli Drekanna. Södertälje Kings vann tvo fyrstu leikina en Sundsvall minnkaði muninn í 2-1 á sunnudaginn.  

Hlynur Bæringsson var með 10 stig, 9 fráköst og 3 stoðsendingar í leiknum  í kvöld en hann frákastahæstur í liðinu og sá þriðji stigahæsti. Hlynur klikkaði reyndar á öllum fimm þriggja stiga skotum sínum í leiknum.

Ægir Þór Steinarsson skoraði 5 stig og Jakob Örn Sigurðarson var með 4 stig en hann hitti aðeins úr einu af sjö skotum sínum í leiknum. Ragnar Nathanaelsson fékk ekkert að spila í kvöld.

Södertälje Kings vantar því bara einn sigur í viðbót til þess að komast í lokaúrslitin og næsti leikur einvígisins er á heimavelli Södertälje eftir þrjá daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×