Fótbolti

Markatalan er 23-0 í síðustu sex leikjum Börsunga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi var maður kvöldsins.
Lionel Messi var maður kvöldsins. Vísir/AFP
Barcelona-liðið hefur verið óstöðvandi í síðustu leikjum sínum og í kvöld vann liðið 3-0 sigur á Bayern München í fyrri undanúrslitaleik liðanna í Meistaradeild Evrópu í fótbolta.

Börsungar með Lionel Messi í rosalegu formi, hafa nú unnið sex síðustu leiki sína í öllum keppnum með markatölunni 23-0.

Lionel Messi skoraði tvö fyrstu mörkin á móti Bayern í kvöld og lagði síðan upp þriðja markið fyrir Neymar.

Messi hefur skorað tvö mörk í síðustu þremur leikjum og hefur einnig verið með eina stoðsendingu í þeim öllum.

Neymar skoraði í kvöld og hefur skorað í fimm af þessum sex leikjum. Luis Suárez skoraði reyndar ekki í þessum leik en hann var með sex mörk í hinum fimm.

Samtals hafa þessir þrír frábæru framherjar skorað 19 af þessum 23 mörkum sem Barcelona-liðið hefur skorað í undanförnum sex leikjum sínum.

Síðustu sex leikir Barcelona-liðsins:

Spænska deildin 18. apríl: Barcelona-Valencia 2-0

Meistaradeildin 21. apríl: Barcelona-PSG 2-0

Spænska deildin 25. apríl: Espanyol-Barcelona 0-2

Spænska deildin 28. apríl: Barcelona-Getafe 6-0

Spænska deildin 2. maí: Córdoba-Barcelona 0-8

Meistaradeildin 6. maí:  Barcelona-Bayern München 3-0


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×