Körfubolti

Helena snýr heim og verður hluti af þjálfaraþríeyki Hauka

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Helena Sverrisdóttir er komin heim.
Helena Sverrisdóttir er komin heim. vísir/daníel
Helena Sverrisdóttir er komin heim í Hauka eins og vitað var, en hún hefur verið í háskólaboltanum í Bandaríkjunum og síðar í atvinnumennsku undanfarin sjö ár.

Helena gerði tveggja ára samning við Haukana í dag, en skrifað var undir á blaðamannafundi í Schenker-höllinni.

Hún þjálfar liðið samhliða Ingvari Þór Guðjónssyni og Andra Þór Kristinssyni sem báðir gerðu eins árs samning við Haukaliðið.

Þetta er mikill hvalreki fyrir íslenskan körfubolta enda Helena verið besti leikmaður Íslands um árabil. Hún hefur undanfarin tíu ár verið kjörin körfuknattleikskona ársins.

Haukar töpuðu í undanúrslitum Dominos-deildar kvenna gegn Keflavík, 3-0, á nýafstaðinni leiktíð, en liðið komst í úrslit í fyrra þar sem það tapaði, 3-0, fyrir Snæfelli.

Haukar urðu síðast meistarar árið 2009, en unnu einnig 2006 og 2007 þegar Helena var fyrirliði liðsins.

Helena var kjörinn besti leikmaður efstu deildar síðustu þrjú árin sín í deildinni þegar hún var 17, 18 og 19 ára. Auk Íslandsmeistaratitlanna tveggja vann hún einnig bikarinn 2005 og 2007.

Hún er stigahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi með 889 stig í 51 landsleik eða 17,4 stig í leik.

Síðast þegar Helena spilaði í Dominos-deildinni skoraði hún 21,2 stig að meðaltali í leik, tók 7,3 fráköst og gaf 9,8 stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×