Real Madrid verður án franska framherjans Karims Benzema í fyrri leiknum gegn Juventus í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld.
Benzema hefur ekki náð sér af hnémeiðslum sem hafa haldið honum frá keppni undanfarnar vikur.
Frakkinn, sem hefur skorað 22 mörk fyrir Evrópumeistarana í vetur, hefur ekki spilað síðan Real Madrid mætti nágrönnum sínum í Atlético Madrid í fyrri leiknum í átta-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Javier Hernández heldur væntanlega sæti sínu í byrjunarliðinu.
Hins vegar er búist við að Gareth Bale verði í byrjunarliði Evrópumeistaranna en hann kom inn á sem varamaður í 2-3 sigri Real Madrid á Sevilla um helgina.
Leikur Juventus og Real Madrid hefst klukkan 18:45 í kvöld og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Einnig verður hægt að fylgjast með honum í beinni textalýsingu á Vísi.
