Geir Sveinsson var verðlaunaður fyrir gott gengi Magdeburg í þýsku úrvalsdeildinni í vetur með nýjum samningi í dag.
Geir náði frábærum árangri á sínu fyrsta tímabili með félaginu. Magdeburg endaði í fjórða sæti deildarinnar og komst í úrslitaleik þýsku bikarkeppninnar þar sem liðið tapaði í vítakeppni.
„Ég er mjög hamingjusamur og afar ánægður með þróun liðsins. Magdeburg gekk vel á tímabilinu og er risavaxið félag þar sem allir vinna saman til að ná markmiðum sínum,“ sagði Geir í viðtali á heimasíðu félagsins.
„Ég er ánægður með nýja samninginn og enn fremur líður fjölskyldu minni afar vel hér. Ég vil halda áfram á þessari braut með félaginu,“ sagði hann enn fremur.
Gamli samningurinn átti að renna út á næsta ári en Geir er nú samningsbundinn félaginu í tvö ár til viðbótar.
